Samherji hf. hefur beðist afsökunar á viðskiptaháttum fyrirtækisins í Namibíu.

„Ámælisverðir viðskiptahættir fengu að viðgangast í starfsemi útgerðar Samherja í Namibíu,“ segir í auglýsingu sem birtist í bæði Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í morgun. „Veikleikar voru í stjórnskipulagi og lausatök sem ekki áttu að líðast. Við brugðumst ekki við eins og okkur bar.“

Engu að síður hafnar Samherji „alfarið ásökunum um mútugreiðslur“, að því er segir í yfirlýsingu sem einnig birtist á vef Samherja í morgun, „en tekur undir þá gagnrýni að við þær aðstæður sem uppi voru hefði átt að gæta betur að því hvernig greiðslur voru framkvæmdar, hverjir tóku við þeim og á hvaða grundvelli, hverjir höfðu heimildir til að gefa fyrirmæli um þær og hvert þær skyldu berast.“

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, segist sem æðsti stjórnandi Samherja bera „ábyrgð á því að hafa látið þau vinnubrögð, sem þar voru viðhöfð, viðgangast.“

Þá gerir Samherji í fyrsta sinn efnislega grein fyrir „nokkrum helstu niðurstöðum úr rannsókn norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein.“

Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar, sem virðast býsna afdráttarlausar, segir Þorsteinn Már það vera eindregna afstöðu sín og Samherja „að engin refsiverð brot hafi verið framin í Namibíu af hálfu fyrirtækja á okkar vegum eða starfsmanna þeirra ef undan er skilin sú háttsemi sem fyrrverandi framkvæmdastjóri hefur beinlínis játað og viðurkennt.“

Nánar má lesa um þessi viðbrögð Samherja í yfirlýsingunni .