Algjör viðsnúningur hefur orðið í rekstri Vísis hf. í Grindavík eftir að landvinnslan var flutt af þremur stöðum úti á landi og sameinuð vinnslunni í Grindavík, að því er fram kemur í ítarlegu viðtali við Pétur Hafstein Pálsson, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, í páskablaði Fiskifrétta sem kemur út í dag.

Pétur segir að með betri nýtingu hliðarafurða, fullvinnslu bita, vélvæðingu í vinnslunni og hagræðingu í bolfiskvinnslu, eigi bolfiskvinnslan í landinu inni tækifæri sem telja í tugum milljarða í auknum tekjum.

Á síðasta ári fór EBITDA Vísis úr 14% í 19% og á yfirstandandi ári er reiknað með að hún verði 25% sem er lítið eitt hærra en meðaltals EBITDA sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi. Allt má þetta rekja til hagræðingar í bolfiskvinnslunni. Milli áranna 2012 og 2013 hafði framlegð fyrirtækisins hins vegar lækkað um 50%.

Sem kunnugt er tóku stjórnendur Vísis þá ákvörðun fyrir réttu ári að flytja alla sína fiskvinnslu til Grindavíkur en samtals voru unnin rúm tíu þúsund tonn á Þingeyri, Húsavík og Djúpavogi. Um 50 manns unnu á hverjum stað, jafnt fólk með fasta búsetu og verkafólk sem auðveldara hefur átt með að færa sig um set.

Sjá nánar viðtal við Pétur í páskablaði Fiskifrétta.