Krafa Íslands og Evrópusambandsins um að mega veiða makríl í grænlenskri lögsögu var meginástæða þess að upp úr makrílviðræðunum slitnaði í gær, segir Audun Maråk framkvæmdastjóri Fiskebåt, samtaka norskra útgerðarmanna, í vefsíðu samtakanna í dag.
„Deilan um heildarkvóta og skiptingu hans var áfram erfið en ástæða viðræðuslitanna var sú að Ísland og ESB vildu ekki skuldbinda sig til þess að láta það vera að veiða úr hinum stóra makrílkvóta (100.000 tonnum) sem Grænland hefur sett sér,“ segir Maråk, en hann var fulltrúi í norsku samninganefndinni á fundinum.
Norski sjávarútvegsráðherrann, Elisabeth Aspaker, segir á vef ráðuneytis síns að Noregur hafi ávallt gengið út frá því að allur makrílafli sem strandríkin veiði skuli vera innan þess samkomulags sem þau geri. Þetta hefði einnig verið forsenda þeirrar kvótaskiptingar milli þjóðanna sem Norðmenn hefðu verið tilbúnir að samþykkja. Þá komi gagnrýni Íslands og ESB á þann heildarkvóta sem Norðmenn hafi lagt til spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að þessar þjóðir ætli að leyfa sínum skipum að veiða umfram þann kvóta sem semja ætti um.