Faxaflóahafnir vinna nú við breikkun viðlegukantsins á Norðurgarði þar sem frystigeymsla HB Granda er. Framkvæmdin sem stendur yfir núna hófst um mitt ár 2016 og áætluð verklok eru næsta vor. Alls er þetta framkvæmd upp á um hálfan milljarð króna.

Áður var þarna um 100 metra löng trébryggja sem var byggð 1965 á þeim árum sem þarna var frystihús Ísbjarnarins.

Árið 2002 hófu Faxaflóahafnir framkvæmdir við stækkun lands og byggingu á nýjum hafnarbakka á Norðurgarði og stóðu þær framkvæmdir til ársins 2005. Að sögn Jóns Þorvaldssonar aðstoðarhafnarstjóra stóð þá alltaf til að halda áfram með gerð nýs hafnarbakka meðfram frystigeymslunum þar sem trébryggjan var.

Bryggjan breikkuð um 15 metra

„Nú hefur trébryggjan verið rifin og verið er að reka þarna niður stálþil og byggja upp þennan nýja hafnarbakka. Trébryggjan var ekki nema tíu metrar á breitt en nýi viðlegukanturinn verður 25 metrar á breidd meðfram frystigeymslunni. Þarna verður mun betra vinnurými og bætt aðstaða, jafnt veitukerfi, rafdreifikerfi og hitaveitukerfi, fyrir nýja frystitogara sem HB Grandi er að láta smíða,“ segir Jón.

Dýpið við bryggjuna verður rúmir 7 metrar og ljóst að þarna verður mikil hafnarbót fyrir HB Granda. Jón segir að með þessu ljúki mannvirkjafrágangi Faxaflóahafna við Norðurgarðinn. Kostnaður Faxaflóahafna af framkvæmdinni er 460 milljónir króna en auk þess leggur HB Grandi til fjármagn vegna fyrir kerfa sem verða í eigu fyrirtækisins.

„HB Grandi er stærsta sjávarútvegsfyrirtækið í Reykjavík og Faxaflóahafnir hafa umtalsverðar tekjur af starfsemi fyrirtækisins í formi aflagjalda, leigu af landi og þjónustugjöldum af margvíslegu tagi. Tekjurnar eru því margþættar og HB Grandi er eðlilega einn af okkar stærri viðskiptavinum,“ segir Jón.