Hoffell, uppsjávarskip Loðnuvinnslunar á Fáskrúðsfirði, var komið á loðnumiðin suðaustur af landinu í byrjun vikunnar eftir ágætan túr syðst í færeysku lögsöguna þar sem afraksturinn var 1.400 tonn af kolmunna sem landað var á Fáskrúðsfirði síðastliðinn sunnudag. Skipið landaði síðan 400 tonnum af vænni loðnu aðfaranótt þriðjudagsins sem fengust í tveimur köstum um 5 mílur suðvestur af Höfn í Hornafirði.

Bergur Einarsson skipstjóri sagði að loðna hefði verið á víð á dreif á 27 sjómílna stíminu frá Fáskrúðsfirði og suðaustur af Höfn þegar farið var af stað síðastliðinn mánudag. Þar var talsvert af loðnu á mánudag en veiðin þó ekki hafin að fullu. Á miðunum voru einnig Ísleifur VE og Vilhelm Þorsteinsson EA.

„Við höfum fundið lykt af loðnu hérna suðaustur af Höfn. Við erum búnir að taka eitt kast og það er hellingur að sjá á stóru svæði en þetta er ekki alveg búið að forma sig. Hún fer að ganga hérna upp í fjöruna og þá þéttir hún sig,“ sagði Bergur sem hafði fengið 170 tonn í fyrsta kastinu. Aflinn fékkst í nót.

Seinna á mánudag var kastað á ný og fengust þá um 230 tonn af vænni loðnu.

15% hrognafylling

Loðnan er falleg og komin í 15% hrognafyllingu og hrygnan því tilbúin í heilfrystingu fyrir Japansmarkað. Bergur átti von á því að farið yrði aftur í dag, fimmtudag, á miðin. „Gangan var ekki alveg búin að forma sig og var á leið yfir hraun. En þetta fer alveg að smella á. Það var loðnu að sjá á mjög stóru svæði en hún þarf að fara að koma sér upp í fjöruna.“

Hoffellið fór einn túr í færeysku lögsöguna eftir kolmunna sem Íslendingum var heimilt að veiða eftir að samningar tókust milli Íslendinga og Færeyinga. Þar fengust 1.400 tonn og sagði Bergur fremur rólegt hafa verið yfir veiðunum. Aflinn fékkst í sex holum.

„Nú er bara fjör framundan vonandi. Við keyrðum í loðnudreif í 27 mílur. Það er eitthvað á leiðinni hingað en nú er bara að bíða eftir að þetta formi sig betur.“

Bæði Vilhelm Kristinsson og Ísleifur voru á miðunum úti fyrir Hornafirði og talsverður fjöldi norskra loðnuveiðiskipa var úti fyrir Norðausturlandi.