Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu báðir sl. laugardag og síðan aftur í gær. Í gær lönduðu þeir báðir fullfermi í Vestmannaeyjum en á laugardaginn landaði Bergur í Þorlákshöfn og Vestmannaey í Eyjum.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við skipstjórana, þá Birgi Þór Sverrisson á Vestmannaey og Jón Valgeirsson á Bergi.

Birgir Þór sagði að vertíðarfiskurinn væri heldur seint á ferðinni. „Já, hann kemur nú með seinni skipunum. Það virðist allt vera heldur seint á ferðinni og vonandi er loðnan líka bara sein þetta árið. Við lönduðum tæplega 60 tonnum á laugardag og þá var aflinn mest þorskur og ufsi. Í þeim stutta túr var veitt á Pétursey og Vík í rysjóttu veðri. Síðan var haldið út strax eftir löndun og fyrst veitt á Pétursey, Vík og í Meðallandsbugt. Veiðin var ekkert alltof góð. Þá héldum við austur á Höfða og þar var fínasta veiði, mest þorskur og svolítil ýsa með,“ sagði Birgir Þór.

Jón Valgeirsson á Bergi sagði að nú væri vertíðin rétt að byrja. „Við lönduðum um 50 tonnum í Þorlákshöfn á laugardaginn eftir að hafa verið sólarhring að veiðum. Í þeim stutta túr fékkst mest þorskur og ufsi. Eftir löndun var haldið rakleiðis í Meðallandsbugtina og reynt við ýsu. Þar var sæmilegasta kropp. Síðan lá leiðin á Ingólfshöfðann og þar fylltum við skipið af vænum þorski en með honum fékkst dálítil ýsa. Á Höfðanum stoppuðum við einungis í 12 tíma. Það er létt yfir mönnum enda vertíð framundan,“ sagði Jón.

Bergur hélt til veiða á ný um miðnætti og Vestmannaey í morgun.