„Við erum að leita eins og er og hér er kaldaskítur,“ sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Víking AK sem er ásamt stórum hluta íslenska uppsjávarflotans vestarlega í Síldarsmuginni nærri mitt á milli Íslands og Noregs. Albert sagði að lítið yrði vart við makríl þessa stundina en það gæti reyndar breyst eins og hendi væri veifað.

„Veðrið á að lagast og þá verður þetta  viðráðanlegra. Ég hef ekkert séð makríl í dag. Ég keyrði  reyndar hérna framhjá Jónu Eðvalds sem hafði kastað á ágætistorfu en þær eru ekki margar í augnablikinu torfurnar. Ég hef ekki séð neitt núna til þess að kasta í. Það er líka dálítill verkur að draga troll í yfirborðinu í svona veðri. Hérna er 17 til 20 metra vindur núna og búið að vera þannig í nokkurn tíma. En veðrið skánaði aðeins eftir því sem við fórum vestar í Smugunni,“ segir Albert.

Það sést á marinetraffic að urmull skipa er á litlum bletti í Smugunni að leita makríls. Albert segir þetta algjört kraðak og erfitt sé að komast í vænlega bletti. Þeir endist líka mjög stutt til veiða þegar svo mörg skip eru að á sama svæðinu. Auk íslenskra skipa er þarna fjöldi rússneskra, færeyskra og grænlenskra skipa. Engir Norðmenn voru á svæðinu en nokkur norsk skip voru þar fyrir skemmstu. Norðmenn hafa ekki verið að gera neitt sérstaklega gott mót í makrílveiðum á heimamiðum og hafa því eins og aðrir sótt í alþjóðlega hafsvæðið.

Góður síðasti túr

„Síðasti túr byrjaði mjög rólega en endaði vel. Við enduðum túrinn hérna dálítið vestar í mjög góðri veiði og lönduðum rúmum 1.300 tonnum á Vopnafirði. Þetta byrjaði á um 300 tonnum af smærri fisk en hitt var 470-500 gramma fiskur. Ég veit ekki hvað skal segja um framhaldið en vonandi endist þetta eitthvað aðeins lengur. En það hefur verið frekar erfitt að eiga við þetta í sumar. Þetta hafa verið litlir blettir sem hafa ekki gefið mikið. Við erum búnir að keyra mikið hér um og leita.“

Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi. Mynd/Þorgeir Baldursson
Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi. Mynd/Þorgeir Baldursson

  • Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi. Mynd/Þorgeir Baldursson

Ómögulegt er að segja hvenær veiðunum í Smugunni lýkur og segir Albert að skipin hafi stundum verið að fram í september.

Albert segir að það sé greinilega makríll á heimamiðum vestan við Smuguna en hann hefur verið of dreifður upp á að gefa einhverja veiði. Albert hefur verið á makríl alveg frá því að hann fór fyrst að veiðast af einhverju ráði við Ísland fyrir rúmum áratug.

„Þessi vertíð fer ekki í sögubækurnar sem ein af þeim bestu. Það er svo langt að fara eftir honum líka og verið hálfleiðinlegt að eiga við þetta núna. Maður veit aldrei hvort makríll eigi eftir að ganga upp að landinu í veiðanlegu magni eins og hann gerði áður. Þetta er svo fljótt að breytast í allar áttir. Vonandi kemur hann aftur í veiðanlegu magni. Það eru einhver skilyrði sem stjórna þessu sem ég veit ekki hver eru. Makríll hefur gjarnan þjappað sig í lóðningar þar sem eru skörp hitaskil. Maður hefði haldið að hann vildi helst ekki vera í köldum sjó en svo hef ég oft séð hann í jökulköldum sjó. En þetta snýst oft mest um stað og stund hvenær menn hitta á þetta. Þú getur verið í mokveiði í klukkutíma og svo er hann horfinn. Það er erfitt að ráða í makrílinn,“ segir Albert.