Staða rækjuiðnaðarins hefur versnað. Veiðar á kaldsjávarrækju á norðurslóð hafa farið minnkandi og verðhækkun á rækjuafurðum hefur að nokkru leyti gengið til baka. Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum.
Nýlega var haldinn fundur í Portland í Oregon á vegum International Coldwater Prawn Forum sem eru samtök þeirra sem veiða og vinna kaldsjávarrækju í Norðurhöfum. Yngvi Óttarsson hjá Íslensku útflutningsmiðstöðinni sótti fundinn og flutti þar erindi um stöðu rækjuiðnaðarins á Íslandi.
„Á heildina litið má reikna með því að framboð á kaldsjávarrækju í heiminum minnki eitthvað eða verði í besta falli stöðugt. Gert er ráð fyrir minni veiði við Kanada, þar sem rækjan á suðursvæðunum er í lægð, einhver aukning verður við Grænland og væntanlega gæti veiðin aukist við Svalbarða og í Barentshafi,“ sagði Yngvi í samtali við Fiskifréttir.
Fram kom hjá Yngva að í heild hefði veiði á kaldsjávarrækju í Norður-Atlantshafi minnkað jafnt og þétt undanfarin ár. Fyrir 10 árum eða svo var hún á milli 400 og 450 þúsund tonn á ári. Árið 2015 veiddust aðeins 250 þúsund tonn.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.