Kínverskur auðjöfur segir að ákvörðun Trumps forseta Bandaríkjanna um að draga Bandaríkin út úr viðræðum um fríverslun milli Kyrrahafsríkja hafi gefið honum svigrúm til að ráðast í hundruð milljarða fjárfestingu í uppbyggingu á miðstöð fyrir fiskvinnslu og verslun með sjávarafurðir. Frá þessu er greint á vef SeafoodSource.
Auðjöfurinn sem hér um ræðir heitir Liu Chun Hui og er hann stjórnarformaður í sjávarútvegsrisanum Lu Haifeng Group. Fyrirtæki hans ætlar að byggja alþjóðlega viðskiptamiðstöð fyrir sjávarafurðir á 12 ferkílómetra svæði í borginni Qingdao. Áætlaður kostnaður við verkefnið er 2,5 milljarðar dollara (285 milljarðar ISK). Á svæðinu verða löndunarhöfn fyrir togara, fiskvinnsluhús og risastórar frystigeymslur. Afurðirnar eiga að fara á heimamarkað í Kína og til annarra Asíuríkja. Liu segir að þeir ætli meðal annars að nýta sér samskipti við Rússa og fá frá þeim meira af villtum fiski til vinnslu. Á svæðinu verður líka byggð upp aðstaða fyrir fyrirtæki sem veita útgerðum þjónustu svo og húsnæði fyrir sjómenn til dvalar í landi og tómstundastarfs.
Liu segir að þeir hafi lengi verið hikandi við að ráðast í þetta risastóra verkefni en eftir að Trump boðaði verndarstefnu Bandaríkjanna hafi þeir séð sér leik á borði að styrkja sambandið við Rússa og fullnýta viðskiptasamninga sem Kína hafi gert við önnur Asíuríki.