Verður rauðáta ný og mikilvæg stoð innan sjávarútvegs á Íslandi? Þessi misserin er unnið markvisst að því að svara spurningum af þessu tagi og mörgum öðrum sem málinu tengjast. Margir hallast að því að rauðáta sé gríðarlega vanmetin auðlind sem Íslendingar eigi en nýti ekki.

Þekkingarsetur Vestmannaeyja hefur staðið að rannsóknum á veiðum og vinnslu á rauðátu undanfarin þrjú ár. Þekkingarsetrið er með leyfi til veiða á 1.000 tonnum á rauðátu á ári. Síðastliðið sumar gerði það út rannsóknabát sinn Friðrik Jesson VE 177 og hóf sýnatökur í Háfadýpi. Hörður Baldvinsson, framkvæmastjóri setursins, segir að tilgangurinn í þessari atrennu hafi fyrst og fremst verið sá að komast að því hve mikill meðaflinn yrði.

Rannsóknabátur Þekkingarsetur Vestmannaeyja, Friðrik Jesson VE.
Rannsóknabátur Þekkingarsetur Vestmannaeyja, Friðrik Jesson VE.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Samkvæmt Hafrannsóknastofnun er áætlað að árlegur lífmassi rauðátu við landið sé um 8 milljónir tonna og massinn er mestur við suðurströndina. Hörður telur ekki útilokað að í framtíðinni verði leyfðar veiðar á 100-150 þúsund tonnum á ári. Veiðileyfi Þekkingarsetursins er svipað að umfangi og það sem talið er að einn hvalur éti á ári af rauðátu, þ.e. 1.000 tonn.

„Við höfðum tekið þá ákvörðun að ef það yrði mikill meðafli í sýnatökunni í sumar myndum við láta þetta gott heita og hætta. Við tókum þarna ítrekað sýni og fengum nánast engan meðafla sem voru mjög góðar fréttir. Sýnin voru tekin með búnaði sem við fengum að láni hjá Hafrannsóknastofnun, svokölluðum bongó-háfum,“ segir Hörður.

Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja.
Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja.

Að auki fékkst til verkefnisins búnaður að láni frá Háskóla Íslands og notaðar voru gervihnattarmyndir til þess að finna rauðátublómann. Ekki er vitað til þess að stuðst hafi verið við þessa tækni áður við verkefni af þessu tagi. Gervihnattamyndirnar nýttust þó ekki nema þá daga sem heiðskírt var.

Verkefnið skalað upp

Hörður segir að ætlunin sé að skala verkefnið upp næsta sumar og hefja þá veiðar af meiri festu. Vonir standa til að stærri bátur verði fenginn í verkefnið enda verði veiðibúnaður sem þá verður notaður umfangsmeiri, þ.e.a.s. hefðbundinn veiðarfærabúnaður til rauðátuveiða en í smækkaðri mynd. Vonir standa til að veiðarfærabúnaðurinn komi frá væntanlegum norskum samstarfsaðilum.

Tilgangurinn síðasta sumar var einungis sá að sjá umfang meðafla við þessar veiðar. Háfarnir voru t.a.m. ekki dregnir í gegnum lóðningarnar eins og til stendur að gera næsta sumar. Sýnin sem fengust síðastliðið sumar eru nú hjá Matís þar sem þau verða rannsökuð með tilliti til innihaldsefna og hvort þau séu önnur en er að finna í rauðátu sem Norðmenn veiða. Von er á þeim niðurstöðum um áramótin.

Sýnin voru tekin í svonefnda bongóháfa.
Sýnin voru tekin í svonefnda bongóháfa.

Sýnatakan síðasta sumar hófst í byrjun júní og stóð út allan júlímánuð. Hörður segir að næsta sumar verði þetta tímabil lengt til að komast að því hvort mælanlegur munur sé á innihaldsefnum rauðátunnar eftir því á hvaða tíma ársins hún er veidd.

Forkaupsréttur á afurðunum

Rannsóknaverkefnið er kostnaðarsamt. Þekkingarsetrið hefur fengið myndarlegan stuðning frá Vestmannaeyjabæ, Matís, Samtökum Sveitarfélaga á Suðurlandi,Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnun, Ísfélagi Vestmannaeyja og Vinnslustöðinni. Nú er hafin vinna við gerð viðskiptaáætlunar og gerð samstarfssamnings við norska fyrirtækið Calanus AS er á lokametrunum. Samningurinn felur í sér að Calanus láti Þekkingarsetrinu í té þekkingu og tækjabúnað og fái forkaupsrétt á afurðunum í staðinn. Calanus AS hefur rannsakað, veitt og unnið verðmæt efni úr rauðátu allt frá árinu 1959. Það sem vakir fyrir Calanus með samstarfssamningnum er að afla sér viðbótarhráefnis fyrir eigin vinnslu í Tromsø.

„Með samstarfssamningnum viljum við stökkva yfir hluta þróunarfasans með því að fá frá Calanus veiðibúnað, tækniþekkingu og annað. Við þurfum þá ekki að finna upp hjólið á ný.“

Hörður segir að lyfjafyrirtæki séu áhugasöm um afurðir úr rauðátu. Einkar jákvæðar fréttir séu að berast af meðhöndlun á sykursýki II og ofþyngd með efnum sem unnin eru úr afurðum rauðátunnar, en þetta eru kvillar sem herja í síauknum mæli á nútímamanninn. Þá er í afurðum rauðátunnar efnið astaxanthin sem kallað hefur verið „konungur andoxunarefnanna“. Þetta eru dæmi um verðmætustu afurðirnar en rauðátan nýtist öll í vinnslu og hluti hennar fer í fæðubótarefni, hluti í lyfjaiðnaðinn og annað í fóður fyrir laxeldi. Hörður segir að ef vel takist til sé um að ræða mun meiri verðmæti úr afurðum rauðátunnar en úr hefðbundnu sjávarfangi.

Hörður bendir á að veiðitímabilið á rauðátu er í byrjun sumars og fram í ágúst sem er einmitt sá tími sem stærsti hluti uppsjávarskipaflotans er verkefnalaus og bundinn við bryggju. Hann gæti því þegar fram líða stundir gagnast vel við veiðarnar. Það standi auðvitað ekki til að Þekkingarsetrið standi sjálft að veiðum á rauðátu heldur sé það eingöngu í rannsóknafasa verkefnisins sem vonandi eigi eftir að auðga atvinnulíf á Suðurlandi.