Nýjar rannsóknir og útreikningar benda til þess að loðnukvótinn í Barentshafi á næsta ári geti orðið 65 þúsund tonn en ekki 15 þúsund tonn sem var niðurstaða úr norsk-rússneskum leiðangri snemma í október.
Þetta kemur fram á vef samtaka norskra útvegsmanna. Vitnað er í Arne Røksund, ráðuneytisstjóra í norska sjávarútvegsráðuneytinu. Hann segir að þetta sé byggt á nýjum rússneskum rannsóknum sem hafi verið yfirfarnar af hafrannsóknastofnuninni norsku. Nýju útreikningarnir hafi verið sendir til Alþjóðhafrannsóknaráðsins (ICES). Gert sé ráð fyrir því að norsk-rússneska fiskveiðinefndin komi saman á ný til að ákveða loðnukvótann þegar mat ICES liggur fyrir.