Sjávarútvegsfyrirtæki á Austurlandi hafa í tvígang undanfarna daga þurft að hafna viðskiptum með makríl við norsk makrílveiðiskip sem hugðust landa á Fáskrúðsfirði og Eskifirði. Ástæðan er íslensk lög frá 1998 sem banna landanir á afla úr deilistofnum sem ekki hefur verið samið um. Þrýstingur er innan Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi að þessum lögum verði breytt enda talsvert í húfi fyrir afkastamikil uppsjávarhús á Austurlandi að lengja vinnslutímabilið og auka verðmætasköpunina.
Samkvæmt lögum frá 1998 er erlendum skipum óheimilt að landa afla á Íslandi úr deilistofnum sem ekki eru samningar um. Þetta á við um makríl og kolmunna, svo dæmi séu tekin. Vilji er fyrir því meðal uppsjávarfyrirtækja að lögunum verði breytt enda séu þau Íslendingum ekki til hagsbóta.
„Þessi lög bitna bara á okkur sjálfum. Með þeim er í raun verið að setja refsiaðgerðir á Íslendinga. Þetta nær í raun ekki nokkurri átt. Þessi séríslensku lög breyta engu um samningsstöðu Íslendinga og við þvingum Norðmenn ekki að samningsborðinu með því að leyfa ekki löndun á makríl úr skipunum þeirra á Íslandi,” segir Magnús Ásgrímsson verksmiðjustjóri hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði.
Eskja hafði líka gert ráðstafanir til að kaupa makrílfarm úr norska skipinu Havsnurp í gegnum uppboðsvef Norges sildesalgslag, norska síldarsölusamlagsins, og var skipið komið inn í íslenska lögsögu á leið til Eskifjarðar þegar endanlegt afsvar barst um að þetta yrði leyft.
Til Færeyja með aflann
Uppsjávarskipið Knester var á hinn bóginn komið alla leið til Fáskrúðsfjarðar úr Síldarsmugunni en var snúið til Færeyja áður en löndun hófst. Bæði skipin seldu sinn afla svo í Færeyjum þar sem verðmætasköpunin fór fram. Styttri sigling er fyrir norsku skipin til Noregs úr Síldarsmugunni en til Íslands en mikið framboð af makríl þar í landi hafði leitt til verðlækkunar þar.
Íslensk skip hafa á þessari vertíð og undanfarin ár selt hluta af sínum makrílafla í Noregi og Færeyjum þegar þannig hefur staðið á. Enda eru ekki sambærileg lög í gildi í þeim löndum eins og á Íslandi.
„Við vorum búnir að tryggja okkur 670 tonn af makríl veiddum í nót frá norska skipinu Havsnurp. Við urðum svo að hætta við þar sem ekki er leyfi fyrir löndun frá norskum skipum á Íslandi,“ segir Hlynur Ársælsson, rekstrarstjóri uppsjávarvinnslu Eskju, sem segir afar bagalegt að geta ekki nýtt vinnslugetu hátæknivinnslunnar og skapa með því verðmæti.
Eskja tók hins vegar í síðustu viku á móti 900 tonnum af makríl frá tveimur grænlenskum skipum; 700 tonnum frá Tasiilaq og rúmum 200 tonnum frá Tuneq. Samningur er í gildi milli landanna um að grænlensk skip megi landa um 40.000 tonnum á Íslandi.