,,Ef farið verður að tillögum fiskifræðinga varðandi veiðar á norsk-íslenskri síld, makríl og kolmunna á næsta ári, gæti útflutningsverðmæti afla uppsjávarveiðiskipa HB Granda dregist saman um 600 milljónir króna, miðað við að makrílaflinn skiptist svipað milli þjóða, sem rétt hafa til makrílveiða, og hann gerði á þessu ári. Það er reyndar mikil óvissa ríkjandi hvað varðar makrílinn. Samkomulag hefur ekki tekist um skiptingu kvótans og sömuleiðis draga margir í efa að stofnstærðarmatið sé rétt.“

Þetta segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, í samtali við heimasíðu félagsins. Nýlega lagði ráðgjafanefnd Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) til verulega skerðingu á heildaraflamarki norsk-íslenskrar vorgotssíldar og makríls á næsta ári. Samkvæmt aflareglum, sem unnið hefur verið eftir síðustu ár, nemur skerðing aflamarks í síld rúmlega 200 þúsund tonnum og makrílkvótinn skerðist um tæplega 100 þúsund tonn ef veiðin skiptist á svipaðan hátt á milli þjóða og hún gerði á þessu ári. Útlitið er allt annað og betra hvað varðar veiðar á kolmunna en samkvæmt aflareglu er lagt til að heildaraflamarkið verði aukið um 250 þúsund tonn á næsta ári.

Sjá nánar á vef HB Granda.