Verðmæti útfluttra sjávarafurða á heimsvísu minnkaði um 10% milli áranna 2014 og 2015, samkvæmt skýrslu FAO, Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Verðmætið í fyrra nam 135 milljörðum bandaríkjadala, jafnvirði 16.630 milljarða íslenskra króna.

Samdráttur í magni milli ára er aðeins 2-3% þannig að orsökin er aðallega sú að verð á mörgum lykilmörkuðum fyrir sjávarafurðir hefur veikst eftir að hafa verið sterkt í langan tíma. Efnahagslegur samdráttur í löndum eins og Brasilíu og Rússlandi er nefndur í því sambandi. Innflutningur til Rússlands minnkaði milli ára um 46% í dollurum mælt (14% í rúblum) og hefur innflutningsbann á sjávarafurðir frá ákveðnum löndum þar áhrif. Innflutningur til Brasilíu minnkaði um 23% í dollurum (en jókst um 6% í þarlendum gjaldeyri).

Í skýrslunni segir að meginástæðan fyrir 10% samdrætti í verðmæti útfluttra sjávarafurða í heiminum sé styrking dollarans gagnvart öðrum gjaldmiðlum, sérstaklega gjaldmiðlum ESB, Noregs og Kína.