Matvælaráðuneytið birti á þriðjudag skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins Boston Consulting um stöðu og framtíð lagareldis hér á landi, en lagareldi er samheiti fyrir fisk- og þörungaeldi. Skýrslan er ítarleg og Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir hana verða notaða í vinnu við stefnumótun fyrir greinina.

„Fyrirhugað er að birta drög að heildstæðri stefnu í Samráðsgátt stjórnvalda nú í september,“ sagði hún á þriðjudag þegar skýrslan var kynnt, og síðan sé áformað að frumvarp verði lagt fram á vorþingi 2024.

Miklir möguleikar

„Möguleikar Íslands til verðmætasköpunar í hinum fjórum greinum lagareldis til næstu tíu ára eru umtalsverðir,“ segir í skýrslunni. Dregnar eru upp þrjár sviðsmyndir fyrir hverja hinna fjögurra greina og samkvæmt framsæknustu sviðsmyndinni er gert ráð fyrir að framleiðsla í fiskeldi geti aukist úr 51.000 tonnum árið 2022 í 428.000 tonn árið 2032, og þar á ofan geti framleiðsla stórþörunga og smáþörunga aukist úr 115.000 tonnum upp í 273.000 tonn. Þessi mikla framleiðsla geti mögulega skilað af sér 430 milljarða króna söluverðmætum og skapað ríflega 12.000 störf.

Raunhæfari sviðsmynd, grunnmyndin, sýnir hins vegar vöxt fiskeldis úr 51 þúsund tonni upp í 245 þúsund tonn. Þörungaframleiðslan færi upp í tæp 180 þúsund tonn. Söluverðmæti gæti hækkað í 242 milljarða og störfin yrðu tæp sjö þúsund.

Þrjár sviðsmyndir

Sviðsmyndirnar eru annars þrjár. Sú fyrsta er óbreytt frá núverandi stöðu, gerir ekki ráð fyrir verulegri styrkingu regluramma og eftirlits og framleiðslan svipuð.

Grunnsviðsmyndin, sem talin er líklegust, gerir hins vegar ráð fyrir styrkingu regluverks og auknu eftirliti, auk þess sem tækniþróun, bættur rekstur og meira fjármagn stuðli að auknum vexti. Tilraunaverkefni í úthafseldi nái árangri og stórþörungaeldi verði umfangsmikið.

Framsækna sviðsmyndin, sem talin er möguleg en ekki endilega líklegust, gerir svo ráð fyrir því að Ísland verði orðið að leiðandi þjóð í lagareldi, með skilvirku eftirliti og nýrri tækni sem leiði til minni umhverfisáhrifa.

Óskilvirkni

Sérstaklega er bent á það í skýrslunni að „regluverk, umfang stjórnsýslu og eftirlits hafa ekki fylgt örum vexti greinarinnar. Það hefur leitt til óskilvirkni þegar kemur að fyrirsjáanleika, afgreiðsluhraða og gagnsæi leyfisveitinga. Aðstaða til rannsókna og framboð á menntun er einnig minni en í þeim löndum sem þar eru í fremstu röð.“

Ríkisendurskoðun komst að svipuðum niðurstöðum í svörtu skýrslunni um fiskeldi sem birt var fyrir nokkrum vikum.

Gjaldtakan

Snert er á flestum þáttum lagareldis í skýrslunni, þar á meðal gjaldtöku á sjókvíaeldi og gerður samanburður á Íslandi, Færeyjum og Noregi hvað það varðar.

Gjaldtaka á laxeldi hefur verið mikið til umræðu hér á landi. Eldisfyrirtækin hafa ekki þurft að greiða neitt fyrir leyfin, en það segir ekki alla söguna og samanburður milli landa er nokkuð flókinn. Einnig er skoðað hvernig gjaldtöku er háttað í Skotlandi og Síle.

Í öllum löndunum þurfa fyrirtækin að greiða skatta og gjöld, þar á meðal tekjuskatt sem er 18% í Færeyjum, 20% á Íslandi og 22% í Noregi.

Framleiðslugjald eða auðlindagjald er einnig lagt á fyrirtækin í þessum þremur löndum, og hér á landi er einnig inheimt af þeim umhverfisgjald og hafnargjald. Í Noregi þurfa fyrirtækin að greiða rannsókna- og útflutningsgjald, og þar greiða þau einnig fasteignaskatt til sveitarfélaga.

Norska ríkið hefur síðan lagt til að innleiddur verði auðlindaskattur sem næmi 40% og átti gjaldtaka að hefjast nú í janúar 2023.

Evrur á kíló

Í skýrslunni frá Boston Consulting er skoðað hvernig samanburðurinn kemur út þegar gjöldin eru reiknuð á hvert slátrað kíló, en sá samanburður er háður söluverðmæti afurðanna hverju sinni.

Árið 2021 var heildargjald á hvert kíló af slátruðum laxi hæst í Færeyjum, eða 0,31 evra, og lægst í Noregi, 0,07 evra. Ísland var þar á milli með 0,13 evrur á hvert kíló.

„Helsta ástæðan fyrir lágu gjaldi á Íslandi í samanburði við Færeyjar er sú að gjaldhlutfall heildarframleiðslu verður ekki að fullu innleitt fyrr en 2026, þ.e. nú er það aðeins 1% og hækkar svo í 3,5% í jöfnum skrefum fram til 2026,“ segir í skýrslunni.