Verð á útfluttum eldisþorski frá Noregi lækkaði í hinni vikunni um tvær krónur eftir að hafa náð 30 norskum krónum á kílóið (640 ISK) í vikunni þar á undan, samkvæmt opinberum tölum í Noregi.
Verðið fyrir útfluttan slægðan, hausskorinn, ferskan eldisþorsk var 28,16 krónur á kílóið í 26. viku. Þetta er 2,04 króna verðlækkun frá vikunni áður.
Það sem af er ári hafa verið flutt út 4.800 tonn af eldisþorski frá Noregi sem er 4% minnkun frá sama tíma í fyrra. Meðalverðið það sem af er árinu er 24,78 krónur á kíló (530 ISK) sem er 12% hækkun miðað við sama tíma á síðasta ári.
Heildarútflutningsverðmæti fyrir slægðan, hausskorinn, ferskan eldisþorsk til og með viku 26 er 118 milljónir norskra króna (2,5 milljarðar ISK) en var 110 milljónir á sama tímabili í fyrra. Þetta er 8% aukning.