Verð á norskum eldislaxi hefur fallið mikið mitt í háannatímanum í slátrun á laxinum, að því er fram kemur í frétt í norska sjónvarpinu.

Verðið hefur lækkað um 8 krónur norskar á kílóið á aðeins fjórum vikum. Fyrir þremur vikum síðan seldist norskur lax á metverði, eða 43,5 krónur á kílóið sem er jafnvirði 875 íslenskra króna. Vikuna eftir lækkaði verðið niður í 35 krónur á kílóið, um 705 krónur íslenskar.

Miklir hitar í Evrópu samhlið því að mikið framboð er af laxi sem kominn er í sláturstærð ræður þessum verðlækkunum

Á sama tíma hefur verð á hlutabréfum í norska laxeldisrisanum Marine Harvest lækkað um 7%.