Ljósafell SU 70 landaði í nótt nærri 100 tonnum, þar af um 65 tonnum af þorski. Veiðiferðin var óvenjuleg fyrir þær sakir að flýja þurfti að hefðbundnum miðum úti fyrir Austurlandi vegna óveðurs og sækja norður fyrir land. Þar fékkst ágætur afli og var mikið af loðnu í þorskinum.

Kristján Gunnarsson skipstjóri á Ljósafellinu segir að meira hafi verið siglt í þessum túr en oft áður.

Sterkir rykblettir

„Við vorum talsvert að fyrir norðan Grímsey, á Rifsbanka úti á Húnaflóa og enduðum svo út af Melrakkasléttunni. Við sáum ekki mikið af loðnu en þorskurinn á þessum þremur svæðum var allur að éta loðnu. Við vorum með tæp 100 tonn, þar af 65 tonn þorskur, 26 tonn af ýsu og með öllu, lifur og hrognum voru þetta tæp 100 tonn. Það má finna fisk þarna víða þegar loðnan kemur þarna aðeins upp. Ég hef verið svo mikið á Austfjarðamiðunum og þetta eru ekki beinlínis heimamiðin en við vitum að þarna er oft góðan fisk að fá á þessum árstíma,“ segir Kristján.

„En ég varð ekki var við loðnutorfur heldur frekar litla en sterka rykbletti og fiskur klárlega undir þeim. Enda er þarna algjör eðalfæða fyrir þorskinn“

Hrafn Sveinbjarnarson GK, frystitogari Þorbjarnar í Grindavík, var tiltölulega nýkominn á miðin úti fyrir Norðvesturlandi og var að reyna fyrir sér á Sporðagrunni. Kristján Ólafsson skipstjóri segir að í augnablikinu snúist þetta mest um það að finna sér skárra veður.

„Eina sem ég hef heyrt af loðnu var frá þeim sem voru grunnt upp á Halanum fyrir um það bil þremur dögum. Þeir töldu sig hafa orðið varir við loðnuryk. En ég hef ekki heyrt neinn tala um loðnutorfur og við höfum ekki tekið eftir loðnu í fiski,“ segir Kristján.