Sérfræðingar norsku hafrannsóknastofnunarinnar telja ólíklegt að bráðnun íssins á norðurheimskautssvæðinu muni leiða til aukinnar útbreiðslu fiskstofna á norðurslóðum í fyrirsjáanlegri framtíð.

Þeir segja að þorskur og ýsa hafi þegar náð norðlægustu útbreiðslu sinni og þótt karfi, loðna og síld kunni að ganga inn í Norðuríshafið í fæðuleit verði veiðar í atvinnuskyni varla stundaðar í miðju þess í ,,mörg, mörg ár“ eins og það er orðað.

Sérfræðingarnir benda á að fisktegundir eins og þorskur og ýsa séu bundnar við landgrunn eins og í Barentshafi og Norðursjó. Þær haldi sig til dæmis ekki í Norska hafinu (hafinu milli Noregs og Íslands) þótt þar sé næg fæða og æskilegur sjávarhiti. Þar af leiðandi muni þessar tegundir ekki teygja sig lengra í Barentshafi en sem landgrunnið nær í átt að Norðuríshafinu, jafnvel þótt íslaust sé þar fyrir norðan. Þetta eigi einnig við um djúpsjávartegundir eins og grálúðu, hún haldi sig á landgrunninu.

Fram kemur að flestar fisktegundir kjósi sjávarhita sem er yfir frostmarki. Loðnan sé líklegust uppsjávartegundanna til þess að ganga inn í Norðuríshafið í ætisleit en útbreiðsla hennar á síðustu árum bendi eigi að síður til þess að hún fari ekki lengra en landgrunnið nær.

Frá þessu er skýrt á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.