Í síðustu viku var nýr og fullkominn vélarúmshermir formlega tekinn í notkun í Verkmenntaskóla Austurlands og mun hann nýtast við kennslu á vélstjórnarbraut sem tekur til starfa við skólann í haust. Við athöfn af þessu tilefni voru starfsmenn skólans og fulltrúar þeirra fyrirtækja sem styrktu kaupin á herminum en það voru Síldarvinnslan, Samvinnufélag útgerðarmanna og Olíusamlag útvegsmanna.
Hermirinn er tölvubúnaður þar sem með nákvæmum hætti er unnt að líkja eftir starfsemi véla í skipum og framkalla allskonar bilanir í vélbúnaðinum.
Við vélstjórnarbrautina verður boðið upp á nám sem veitir réttindi til að gegna starfi yfirvélstjóra og á skipum með vélarafl 1500 kW og minna og undirvélstjóra á skipum með 3000 kW vélarafl og minna. Einnig er stefnt að því að nemendur á vélstjórnarbraut geti að námi loknu gengist undir sveinspróf í vélvirkjun.
Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar fagnar mjög tilkomu vélstjórnarbrautar við Verkmenntaskóla Austurlands. „Þessi áfangi er mjög ánægjulegur fyrir atvinnulífið á Austurlandi,“ segir Gunnþór á vef Síldarvinnslunnar . „ Sterkur skóli með öflugu verknámi styður mjög við starfsemi fyrirtækja í landshlutanum. Með tilkomu þessa nýja og öfluga vélarúmshermis skapast traustur grundvöllur fyrir nám í vélstjórn í heimabyggð og það er afar þýðingarmikið. Öflugir vélstjórar eru mikilvægir atvinnulífinu hvort heldur er við keyrslu fiskiskipa eða framleiðslubúnaðar í landi. Tel ég að það gæti verið áhugavert framhald á samvinnu Verkmenntaskólans og atvinnulífsins að taka frumkvæði í því að skapa starfsþjálfunarpláss úti í atvinnulífinu fyrir nema í vélstjórn bæði um borð í fiskiskipum og í framleiðslufyrirtækjum í landi.“