Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir frá Slysavarnafélagi Landsbjargar voru kallaðar út ásamt varðskipinu Freyju laust fyrir klukkan þrjú í nótt vegna vélarvana flutningaskips.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni þar sem segir að um sé að ræða erlent flutningaskip sem hafi orðið vélarvana um fjórar sjómílur út af Rifstanga. Auk þess sem þyrlusveitin og sjóbjörgunarsveitir hafi verið kallaðar út hafi íslenskt togskip í nágrenninu einnig verið beðið að halda á staðinn.

Flutningaskipið er sagt hafa tekið í átt að landi en áhöfninni tekist að stöðva rekið með því að láta akkeri skipsins falla. Skipið sé nú um þrjár sjómílur frá landi og akkeri þess haldi.

„Vindur er hægur á staðnum og ölduhæð um tveir metrar. Þegar mesta hættan var liðin hjá voru sjóbjörgunarsveitir Landsbjargar afturkallaðar ásamt togskipinu sem var til taks á staðnum. Gert er ráð fyrir að varðskipið Freyja verði komið á staðinn eftir hádegi,“ segir í tilkynningunni. Þá verði ákveðið í samráði við útgerð skipsins með hvaða hætti það verði dregið af staðnum. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sé í viðbragðsstöðu á Akureyri ef á þurfi að halda.