Tilraun með nýjan lúsahreinsunarbúnað í laxeldi í Noregi hefur skilað hundrað prósent árangri, fullyrðir breska fyrirtækið Benchmark.

Lúsahreinsunarbúnaðurinn nefnist Ectosan, en með honum er notaður vatnshreinsibúnaður frá sama fyrirtæki, sem nefnist CleanTreat.

„Þetta er meiriháttar tímamótaskref fyrir Benchmark og laxaiðnaðinn,“ segir Malcolm Pye, framkvæmdastjóri Benchmark, í tilkynningu á vefsíðu fyrirtækisins. Hann segir lúsameðferðina marka tímamót í baráttunni við þennan helsta vágest alls laxeldis, og reiknar með að geta selt búnaðinn í stórum stíl til laxeldisfyrirtækja víða um heim.

Hreinsibúnaðurinn er býsna fyrirferðarmikill. Stórum hreinsitönkum er komið fyrir í brunnbátum, tankskipum, á borpöllum eða jafnvel á landi. Fiskurinn er síðan tekinn úr eldiskvíunum upp í þessa hreinsitanka, hreinsaður þar og síðan settur aftur í kvíarnar. Að því búnu er vatnið í hreinsitankinum hreinsað með CleanTreat-búnaðinum áður en því er dælt aftur út í sjóinn.