Það, sem af er ári, hafa alls tæplega 11.000 tonn af loðnu farið til bræðslu hjá fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði. 1.200 tonnum af loðnumjöli var skipað út frá Vopnafirði nú í byrjun vikunnar og var það fyrsta útskipun ársins á mjöli en áður hafði frystri loðnu verið skipað út frá Vopnafirði, að því er fram kemur á vef HB Granda. Að sögn Sveinsbjörns Sigmundssonar, verksmiðjustjóra HB Granda á Vopnafirði, hefur vinnslan gengið mjög vel á árinu. Öll loðna, sem landað er á Vopnafirði, fer í gegnum flokkarakerfi fyrirtækisins og sú loðna sem ekki hentar til frystingar skilst frá og fer til bræðslu. Er rætt var við Sveinbjörn var Lundey NS í höfn á Vopnafirði en hin skipin þrjú, Ingunn AK, Faxi RE og Víkingur AK voru þá öll á miðunum austur af landinu eða á leiðinni þangað. Lundey fer út síðar í dag en næsta skip, sem von er á til hafnar, er Ingunn AK sem nú er að veiðum.