Á ríkisstjórnarfundi í morgun kynnti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að vinna væri að hefjast í ráðuneytinu við nýtt frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, sem sérstaklega lýtur að stjórnun veiða á úthafsrækju.
Í því lagafrumvarpi sem ráðherra hyggst mæla fyrir á haustþingi verður mælt fyrir um setningu nýrra aflahlutdeilda í úthafsrækju. Þar verður lagt til að hinar nýju hlutdeildir verði ákveðnar þannig að eldri aflahlutdeildir ráði að 7/10 hlutum en veiðireynsla síðustu þriggja ára að 3/10 hlutum. Ekki er gert ráð fyrir að veiðar við upphaf komandi fiskveiðiárs telji við ákvörðun veiðireynslu en veiðar verða frjálsar, upp að tilteknu magni, þar til að frumvarpið hefur verið samþykkt.
Um þetta segir í frétt á vef atvinnuvegaráðuneytisins:
„Með þessu munu þeir hlutdeildarhafar, sem hafa stundað veiðar síðustu þrjú fiskveiðiár fá að njóta þess, samhliða því að gætt er að atvinnuhagsmunum þeirra aðila sem nýir hafa komið að veiðum undir frjálsa fyrirkomulaginu.“
Sjá nánar fréttatilkynningu HÉR