Veiðigjöld og gjöld fyrir aflaheimildir hækka um 3,2 milljarða króna á ári, samkvæmt tveimur frumvörpum til laga sem Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram á Alþingi. Annars vegar er um að ræða 1,7 milljarðs hækkun veiðigjaldanna sjálfra og tæplega 1,5 milljarðar sem er sérstakt endurgjald fyrir úthlutun aflahlutdeildarinnar í makríl.
Í veiðigjaldafrumvarpinu, sjá HÉR , er m.a. lagt til að álagningu veiðigjalda verði breytt þannig að þau verði innheimt mánaðarlega og taki mið af lönduðum afla í stað þess að leggjast á úthlutaðan afla í upphafi fiskveiðiárs. Í makrílfrumvarpinu er m.a. lagt til að makrílveiðum verði stýrt á grundvelli tímabundinna aflahlutdeilda til sex ára.
Áætlað er að álögð veiðigjöld verði um 10,9 milljarðar á næsta fiskveiðiári, að því er fram kemur á vef atvinnuvegaráðuneytisins. Gert er ráð fyrir óbreyttri reiknireglu frá síðasta ári við útreikning veiðigjalda til næstu þriggja ára í frumvarpi sjávarútvegsráðherra um breytingu á lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012. Í þessu felst að veiðigjaldið skilar um 1,7 milljarða tekjuaukningu frá síðasta ári. Tekjuaukningin samræmist því markmiði sem lagt var upp með við álagningu veiðigjalda yfirstandandi árs; að gjöldin taki mið af breytingum í rekstri útgerðarinnar hverju sinni. Þannig aukast tekjur ríkissjóðs þegar vel gengur í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja en lækka þegar verr árar án þess þó að reiknigrunni gjaldanna sé breytt.
Veiðigjald verður nú eitt gjald í stað tveggja sundurliðaðra gjalda áður. Því verður áfram dreift með svonefndum afkomuígildum fisktegunda. Stuðlarnir reiknast árlega og taka mið af útreikningum byggðum á tekjum og kostnaði við útgerð hverrar fisktegundar. Með frumvarpinu er lagt til að álagningu veiðigjalda verði breytt þannig að þau verði innheimt mánaðarlega og taki mið af lönduðum afla í stað þess að leggjast á úthlutaðan afla í upphafi fiskveiðiárs. Með þessu taka afslættir veiðigjalda nokkrum breytingum, annars vegar grunnafsláttur gjaldanna og hins vegar s.k. skuldaafsláttur. Afslættirnir, reiknaðir sem hlutfall af gjaldtökunni, eru nokkuð sambærilegir við síðast liðin ár, segir ennfremur á vef atvinnuvegaráðuneytisins.