Vinna er nú hafin á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins við að kanna leiðir til álagningar á veiðigjöldum til frambúðar og er það í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Áfram verður byggt á almennu og sérstöku veiðigjaldi, það síðarnefnda er tekið til sérstakrar skoðunar og þá hvernig sú gjaldheimta geti tekið sem mest mið af afkomu fyrirtækja. Lög, sem samþykkt voru í sumar gerðu það að verkum að hægt var að leggja á sérstakt veiðigjald á þessu ári, en voru einungis til eins árs. Því þarf að huga að nýrri lagasetningu.
Frá þessu er skýrt á vef ráðuneytisins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur falið veiðigjaldsnefnd, sem starfar á grundvelli laga 74/2012, að gaumgæfa leiðir varðandi álagningu veiðigjalda. Í nefndinni sitja hagfræðingarnir Arndís Ármann Steinþórsdóttir sem leiðir starfið og Daði Már Kristófersson auk viðskiptafræðingsins Jóhanns Sigurjónssonar. Þá hefur verið settur upp annar hópur sem ætlað er að liðsinna nefndinni eftir þörfum en í honum sitja fulltrúar frá Ríkisskattstjóra og Hagstofunni, lögfræðingur frá ráðuneytinu auk aðstoðarmanns sjávarútvegsráðherra.