„Enn er áætlað að innheimta 70% veiðigjald af metnum hagnaði veiða og vinnslu, þannig að það er nánast engin breyting frá fyrri tillögum,“ segir Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ, í frétt á heimasíðu LÍÚ, um nýjar tillögur stjórnarliða varðandi veiðigjald.

„Aðferðafræðin við mat á hagnaði vanmetur sem fyrr fjármagnskostnað og fjárfestingaþörf. Þrátt fyrir minniháttar breytingar þá er hér enn um ofurskattlagningu á íslenskan sjávarútveg að ræða sem mun hafa þær afleiðingar sem lýst hefur verið í fjölmörgum umsögnum og úttektum á frumvarpinu.

„Það er algjörlega óásættanlegt að gera þetta litla breytingu á frumvarpinu og ætla að keyra það í gegnum þingið á nokkrum dögum.“

Samkvæmt tillögum sem kynntar voru fyrir atvinnuveganefnd Alþingis í gær er áfram stefnt að því að veiðigjaldið verði 70%. Sérstaka veiðigjaldið mun byrja með fastri krónutölu, 30 krónur á þorskígildiskíló í botnfiskveiðum og 33 krónur á þorskígildi í uppsjávarveiðum á fiskveiðiárinu 2012-2013, en auk þess er gert ráð fyrir að innheimt verði 8 krónur á þorskígildiskíló í svokallað almennt veiðigjald. Gert er ráð fyrir að sérstaka veiðigjaldið verði 55% fiskveiðiárið 2013-2014 og hækki svo um 5 prósentustig á ári þar til það nær 70% á árinu 2016-2017.

„Enn er gert ráð fyrir að leggja veiðigjald á útgerðina vegna hagnaðar sem verður til í fiskvinnslu sem er andstætt öllum sjónarmiðum um auðlindaskatt. Samkvæmt frumvarpinu er ekki nóg með það að skattlegga eigi hagnað í fiskvinnslu með þessum hætti heldur verða útgerðir sem ekki reka fiskvinnslu skattlagðar vegna hagnaðar sem verður til hjá óskildum aðila. Sem fyrr brýtur frumvarpið í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar um skattlagningu."

„Þær litlu breytingar sem gerðar hafa verið munu því miður ekki koma í veg fyrir að afleiðingar frumvarpsins verða mjög alvarlegar eins og bent hefur verið á í þeim fjölmörgu umsögnum sem atvinnuveganefnd hefur borist," segir Friðrik.