Sjávarútvegsráðuneytið hefur ákveðið að fjöldi veiðidaga á grásleppu verði 32 í ár. Þetta kemur fram í frétt á vef ráðuneytisins.

"Samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er ráðlögð hámarksveiði á grásleppu 6.800 tonn á vertíðinni 2016. Mikil óvissa er ævinlega um aflabrögð við grásleppuveiðar. Grásleppuvertíðin í ár fer afar vel af stað, afli hefur verið góður og virkum grásleppuleyfum fjölgaði lítillega milli ára.

Með hliðsjón af framansögðu hefur ráðuneytið ákveðið að fjölga dögum við grásleppuveiðar úr 20 í 32 með reglugerð sem gefin verður út í dag. Þar með verða veiðidagar jafnmargir og þeir voru í fyrra, en þá veiddust um 6.400 tonn af grásleppu. Dagafjöldinn nú er miðaður við að lítil hætta sé á að heildarafli verði umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar,“ segir á vef sjávarútvegsráðuneytisins.