Hækkun veiðigjalda mun leiða til frekari samþjöppunar í sjávarútvegi að dómi Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans. Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum sem komu út í dag.
Steinþór sagði að þótt afkoma greinarinnar væri góð á heildina litið væri rekstur fyrirtækja misjafn. Öflugustu félögin, fyrirtæki í blandaðri útgerð og vinnslu (uppsjávarfiskur meðtalinn) væru með um 200 króna framlegð að meðaltali á þorskígildiskíló þegar rekstrarárið 2011 væri lagt til grundvallar og að frádregnu fullu veiðigjaldi. Fyrirtæki í bolfiskútgerð og vinnslu skiluðu hins vegar 100 króna framlegð og bolfiskútgerð ein sér ræki lestina með 50 króna framlegð.
„Veiðigjaldið leggst þungt á félög í vinnslu og útgerð bolfisks, þó þyngst á hrein útgerðarfélög. Stóru fyrirtækin skulda minna, eiga meira, skila hærri framlegð. Íslenskur sjávarútvegur er að skiptast í tvennt; stór vel stæð fyrirtæki annars vegar og smærri fyrirtæki í vanda hins vegar. Vegna veiðigjalds er samþjöppun orðin þvingað úrræði fyrirtækja í erfiðri stöðu,“ sagði Steinþór Pálsson.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.