Netabáturinn Þorleifur EA fékk óvenjulegan feng í síðustu viku. Um er að ræða tvíkynja þorsk sem veiddist suðaustur af Grímsey, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Þegar búið var að gera að þorskinum og farið var að huga að hrognunum kom í ljós að svil voru samvaxin við aðra skálmina á einum hrognasekknum.
Jónbjörn Pálsson, líffræðingur á Hafrannsóknastofnun, sagði í samtali við Fiskifréttir að það væri afar sjaldgæft að tvíkynja þorskur veiddist. Hann þekkti aðeins tvö tilvik áður. Þá hefði verið um samskonar fyrirbæri að ræða, þ.e. að svilin voru áföst annarri skálminni en hrognasekkurinn eðlilegur að sjá að öðru leyti.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.