Landað var úr Vilhelmi Þorsteinssyni EA í síðasta sinn á Íslandi um miðjan mánuðinn. Samherji eignaðist skipið árið 2000 og hefur gert það út í 18 ár. Á þessum tíma er afli þess orðinn 968 þúsund tonn. Mestan tímann hefur hinn mikli aflaskipstjóri Guðmundur Jónsson verið við stjórnvölinn og segir hann tilfinningarnar blendnar nú þegar það er kvatt.

Guðmundur segir að sex menn hafi verið allan þann tíma í áhöfn skipsins meðan hann stýrði því. „Það verður mikil eftirsjá þegar skipið fer úr landi. En lífið heldur áfram og það kemur vonandi eitthvað spennandi í staðinn. Allt er breytingum háð í þessu sem öðru,“ segir Guðmundur.

Samið hefur verið við Karstensens Skibsværft í Danmörku um smíði á nýjum Vilhelmi Þorsteinssyni sem verður afhentur í júní 2020. Það skip verður 88 metra langt og 16,60 metra breitt og getur borið 3.000 tonn af kældum afturðum. Til samanburðar má nefna að eldra skipið er 79 metra langur og 16 metrar á breidd.

Guðmundur ætlar þó ekki að láta deigan síga og átti von á því að fara til veiða á Margréti EA innan tíðar. Þar eru ekki nema níu í áhöfn þannig að ekki er pláss fyrir alla sem voru á uppsjávarvinnsluskipinu Vilhelmi Þorsteinssyni.

Breytt mynstur

Ekki verður heldur vinnsla í nýjum Vilhelmi Þorsteinssyni sem breytir útgerðarmynstrinu mikið.

„Úthöldin verða öðruvísi og breytingin verður sú að nú förum við að koma með góðan fisk að landi fyrir vinnsluna. Ég kom til Samherja fyrir 32 árum og hef aldrei verið á öðru en frystitogara svo breytingin verður mikil. Það hefur verið frábær útgerð á þessu skipi og það má alls ekki gleyma þeim þætti. Það er góð útgerð og góður mannskapur sem hefur gert útslagið með þann ágæta árangur sem náðst hefur á Vilhelmi Þorsteinssyni. Þetta spilar mjög mikið saman. Það er tilhlökkun að fá nýtt skip en það er líka eftirsjá að hinu. Það eru blendnar tilfinningar sem fylgja því að vakna á morgnana og vita að við erum ekki að fara að veiða á þessu skipi.“

968 þúsund tonn

Samkvæmt upplýsingum frá Guðmundi er búið að fiska um 968 þúsund tonn á Vilhelm frá því að byrjað var að gera skipið út og landanir þess eru um 820 talsins. Meðalafli skipsins á  ári er 53 þúsund tonn og verðmæti heildaraflans á núvirði gæti verið um 60 milljarðar króna. Alls hefur skipið fiskað 110 þúsund tonn af íslenskri sumargotssíld, 220 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld, 100 þúsund tonn af makríl, 323 þúsund tonn af loðnu, 210 þúsund tonn af kolmunna og um fjögur þúsund tonn af öðrum tegundum, þar á meðal karfa og grálúðu.

Skipið hefur landað mest af sínum afla í Neskaupstað og þar er nánast litið á Vilhelm Þorsteinsson sem eitt af heimaskipunum. Fyrir utan landanir í Neskaupstað hefur Vilhelm landað töluverðum afla í verksmiðjur Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og í Helguvík. Fyrstu skipstjórar á Vilhelm Þorsteinssyni voru Arngrímur Brynjjólfsson og Sturla Einarsson. Guðmundur tók við af Sturlu árið 2001 og hefur verið á skipinu síðan að undanskildum tæpum tveimur árum þegar hann va rá Baldvin Þorsteinssyni EA. Birkir Hreinsson tók síðan við af Arngrími árið 2006.