Japanskir fiskimenn ráku upp stór augu snemma í október þegar þeir fengu í veiðarfæri sitt poka með japönskum peningaseðlum að verðmæti 16 milljóna íslenskra króna. Um var að ræða þúsund og tíu þúsund jena seðla.

Fiskimennirnir afhentu yfirvöldum peningapokann. Þau munu nú bíða þess að eigandi pokans gefi sig fram en ef enginn gerir tilkall til hans innan sex mánaða verða peningarnir afhentir fiskimönnunum. Þar gildir reglan að sá á fund sem finnur.

Peningapokinn fannst úti af borginni Ofunato á norðausturströnd Japans þar sem flóðbylgjan mikla gekk yfir í mars síðastliðnum og lagði hana í rúst. Talið er líklegt að pokanum hafi skolað á haf út í hamförunum en þetta er ekki í fyrsta sinn sem peningar finnast í sjó eftir flóðbylgjuna.