Stærsti þorskurinn sem veiddur var á sjóstangaveiðimóti í Neskaupstað um síðustu helgi vó 15,43 kg og kom á stöng Guðrúnar Jóhannesdóttur frá Akureyri. Keppendur á mótinu voru 23 og til afnota við veiðarnar voru 8 strandveiðibátar sem stýrt var af eigendum þeirra. Mótið var liður í Íslandsmeistaramóti Landssambands sjóstangaveiðifélags Íslands og haldið undir merkjum Sjónes, Sjóstangaveiðifélags Neskaupstaðar.

550 fiskar

Mótið stóð yfir í tvo daga og var veitt í 6 klukkustundir fyrri daginn og 7 klukkustundir þann seinni. Nota mátti mest þrjá króka. Aflahæstur í karlaflokki varð Sigurjón Már Birgisson með 885 kg en Norðfirðingurinn Svala Skúladóttir gerði gott betur og veiddi 1.431 kíló á þessum tveimur dögum, eða eins og tvo skammta strandveiðibáts. Alls voru fiskarnir sem Svala veiddi 550 talsins og meðalþyngdin 2,6 kg. Litlu munaði þó á næst aflahæsta veiðimanninum á mótinu því Vilborg Hreinsdóttir veiddi líka 550 fiska og aflinn vó 1.428 kg. Höfðu þær talsverða yfirburði yfir aðra keppendur því sá sem kom í þriðja sæti yfir flesta fiska var Sigurjón Már Birgisson með 389 fiska.

Matthías Sveinsson, formaður Sjónes, með stærsta fiskinn sem veiddist, rúmlega 15 kíló þorsktarf.
Matthías Sveinsson, formaður Sjónes, með stærsta fiskinn sem veiddist, rúmlega 15 kíló þorsktarf.
© Þorgeir Baldursson (.)

200 tonn í veiðiheimildir

Fyrirkomulagið er með þeim hætti að Landssambandið sækir um 200 tonna veiðiheimildir til Fiskistofu og úthlutar síðan félögum innan landssambandsins. Aflinn er seldur á fiskmarkaði og 10% af andvirðinu fer til Fiskistofu. Annað rennur til félaganna sem þau nota til að standa straum af kostnaði við mótin. Annar hluti rennur til eigenda bátanna fyrir olíukostnaði og öðrum kostnaði. Sjónes fékk 20 tonn til ráðstöfunar fyrir tvö mót sem haldin eru á þessu ári.