Veiðar á íslenskri sumargotssíld eru hafnar vestur af landinu. Beitir NK er kominn á miðin í Kolluál en var ekki búinn að kasta í morgun þegar rætt var við Sigurð Valgeir Jóhannesson skipstjóra á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Sigurður sagði að eitthvað yrði beðið með að hefja veiðar því veiðarnar væru skipulagðar með tilliti til vinnslunnar en brýnt væri að hver farmur væri sem ferskastur þegar komið væri með hann til vinnslu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað.
„Vilhelm Þorsteinsson EA, sem einnig landar í Neskaupstað, hefur hafið veiðar og var með 370 tonn síðastliðna nótt. Það eru fleiri skip á miðunum. Gullbergið fékk 110 tonn í gærkvöldi og það eru einhver skip að hífa einmitt núna. Fínasta veður er á miðunum í þessum töluðu orðum. Það gæti þó kaldað í kvöld og nótt en það ætti að vera skammvinnt. Hér er um að ræða hreina íslenska sumargotssíld en hún hefur að undanförnu verið veidd í nokkrum mæli austur af landinu í bland við norsk-íslensku síldina. Það er býsna langt austur frá miðunum hérna, eða yfir 30 tíma sigling og það skiptir nánast engu máli hvort farið er suður fyrir eða norður fyrir landið hvað siglingatíma varðar,” segir Sigurður Valgeir.