,,Það er veiðanleg loðna mjög víða núna. Hákon EA fékk kast í Meðallandsbugt í fyrradag, við vorum að veiðum við Vestmannaeyjar í gær, svo er töluvert mikið af loðnu við Reykjanesið og allmargir bátar eru á veiðum í Faxaflóa,” sagði Þorsteinn Kristjánsson skipstjóri á Aðalsteini Jónssyni SU í samtali við Fiskifréttir nú um hádegisbilið.

Að sögn Þorsteins hefur loðnan yfirleitt verið í frekar litlum torfum en þó fór stór og löng torfa fyrir Reykjanesið í nótt.

Sjö til átta skip voru að loðnuveiðum í Faxaflóanum í morgun. Skipin þar eru á höttunum eftir loðnu til hrognatöku en hrognahlutfallið í loðnunni eru orðið hvað hæst á þeim slóðum.