Nokkrir nemendur í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri hafa unnið að því eftir áramót að útbúa gagnagrunn þar sem hægt er að grófreikna veiðigjald útgerða. Frá þessu er skýrt í Fiskifréttum í dag.

Nemendurnir benda á að eftir að hafa safnað gögnum frá Fiskistofu, Hagstofunni, ríkisskattstjóra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sýni gögnin, að veiðigjaldið eins og það er í dag, þ.e. að miða gjaldið við þorskígildisstuðla, mismuni fyrirtækjum eftir því í hvaða tegundir skip þeirra sæki. Ennfremur vekja þeir athygli á að þorskígildi miðist við verðmæti þorsks. Þegar þorskverð lækki en verðmæti annarra fisktegunda standi í stað hækki veiðigjaldið á síðarnefndu tegundunum.

Gagnagrunn er nú hægt að nálgast á vefsíðunni: www.veidigjald.com og reikna út veiðigjald ársins 2011 og 2012 fyrir hvert skip ásamt öðrum upplýsingum um veiðileyfagjaldið. Einnig hafa verið tekin saman veiðigjöld stærstu útgerðanna.

Sjá einnig nánar í nýjustu Fiskifréttum.