Fannar Gíslason, forstöðumaður hafnadeildar Vegagerðarinnar, segir að verið sé að uppfæra birtingu ölduspágagna í kringum landið og verður nú hægt að þysja inn á firði og sjá hvernig úthafsaldan berst þar inn. Meðal annars verður tíðni ölduspágagna aukin og mun nú vera birt á þriggja klst fresti og möguleiki að sjá allt að 6 daga fram í tímann.

„Verkefnið er í vinnslu núna.  Núverandi grunnur er upphaflega frá því 1992  og var kominn tími á uppfærslu og því heilmikil vinna framundan að uppfæra kerfið. Felst það aðallega í uppfærslu á kortasjánni og gera viðmótið fyrir vikið notendavænna auk þess að sameina spákort af úthafsöldu og ölduspá á grunnslóð. Gefur það þann möguleika að hægt verður að þysja inn á valin svæði í fjörðum og við hafnir landsins og sjá öldulagið, ölduspá og sjávarföll innan fjarða. Auk þess verði hægt að nálgast mælingar úr duflum, völdum veðurstöðvum og sjávarhæðamælum. Þetta verða helstu breytingar á vefnum,“ segir Fannar.

Greina hækkandi sjávarstöðu

Stefnt er að því að nýi vefurinn verði kominn upp í vor og öll helsta virkni til staðar. Ölduspár verða áfram byggðar á spágögnum frá Evrópsku veðurstofunni sem eru lesin inn í öldulíkön af fjörðum og og grunnsævi við hafnir og verður þeim svæðum fjölgað jafnt og þétt. Fannar telur að nýi vefurinn muni bjóði upp á aukna upplýsingagjöf sem geti aukið öryggi minni báta en ekki síður viðbragðsaðila sjávarbyggða innan fjarða landsins.

Vegagerðin er einnig að setja út sjávarhæðarmæla víðs vegar í kringum landið. Markmiðið með því er að auðvelda greiningu á því hvernig sjávarstaða er að hækka eftir því sem tíminn líður. Það auðveldar mat á því hversu skæðir atburðir geta orðið fyrir einstaka landshluta og þar með hönnun á sjóvörnum. Slíkt mat hefur farið fram t.d. á Sauðárkróki og þar voru sjóvarnagarðar hækkaðir í kjölfarið um 0,7 metra svo þeir ráði við verstu veður sem þar geta orðið.