„Okkur hefur gengið vel. Við erum með fullfermi og ætli aflanum sé ekki best lýst sem nokkurs konar blandi í poka. Við erum með ufsa, þorsk, karfa og ýsu og vertíðin er í hámarki hér á suð-vesturhorninu,” sagði Jóhannes Ellert Eiríksson, skipstjóri á ísfisktogaranum Viðey RE, í viðtali við heimasíðu Brims eftir velheppnaða veiðiferð á Fjallasvæðið og í Jökuldjúpið. Heildaraflinn var tæp 200 tonn. Að hans sögn var veðrið til friðs en þó var komið leiðindaveður um svipað leyti og veiðum lauk.
„Vertíðin er í hámarki en við eigum eftir að fá okkar árlega skot við Eyjar. Það er lítið að gerast annars staðar en hér syðra. Það sér maður best á fjölda aðkomutogara að norðan og austan. Það er oft lítið um að vera á Vestfjarðamiðum á þessum árstíma og ég held að þar séu nú aðeins heimatogararnir Páll Pálsson og Stefnir auk smærri skipa og báta,” segir Jóhannes Ellert en ágætlega hefur gengið að finna ufsa síðustu vikur.
„Ufsaveiðar hafa gengið alveg þokkalega síðustu vikur. Þú veist þó aldrei hvar þú hefur ufsann Hann getur birst eins þruma úr heiðskíru lofti og við fáum góðan afla. Síðan getur ufsinn horfið jafn hratt og hann birtist,” segir Jóhannes Ellert.