„Ég held að það sé vaxandi rækjuveiði í Barentshafi í ár. Mér finnst vera meiri kraftur í veiðinni enda er þorskurinn aðeins á undanhaldi. Þetta fer allt saman. Það er sæmileg afkoma af veiðunum núna miðað við að meðalafli á sólarhring sé kannski 10 tonn. Mest höfum við komust í 16-17 tonn,“ segir Sigurður Þórðarson skipstjóri á grænlenska togaranum Timmiarmiut í samtali í nýjustu Fiskifréttum.

Skipið kom til Tromsö í Norður-Noregi í síðustu viku eftir 58 daga túr á Svalbarðasvæðið með 330 tonn að verðmæti 170-190 milljóna króna. Veiðin var slök til að byrja með en fór batnandi og var orðin ágæt undir það síðasta. Í áhöfn skipsins eru Íslendingar, Grænlendingar og Færeyingar.

Því má bæta við að eitt íslenskt skip, Brimnes RE, hefur verið á rækjuveiðum í Barentshafi að undanförnu.

Sjá nánar viðtalið og myndir sem Þorgeir Baldursson tók í túrnum í Fiskifréttum.