Efnahagskreppan hefur leitt til þess að neytendur á Spáni hafa í auknum mæli sóst eftir ódýrari saltfiskstykkjum og eins hefur sala á ódýra eldisfiskinum pangasius frá Víetnam stóraukist. Þá hafa Norðmenn aukið sókn sína inn á Spánarmarkaðinn í samkeppni við Íslendinga.

,,Erfitt er að spá um hver þróunin verður á spænska saltfiskmarkaðinum,” segir Magnús B. Jónsson framkvæmdastjóri Iceland Seafood á Spáni í samtali við Fiskifréttir. ,,Hér í landi er kreppa og yfir fjórar milljónir manna atvinnulausar. Við finnum að viðskiptavinir okkar leita í ódýrari fisk. Bestu stykkin eins hnakkar hafa aðallega selst inn á veitingahúsin og fólk fer minna út að borða þegar þrengir að. Ég sé ekki fram á að salan aukist á næstunni. Við verðum að leggja okkur alla fram ef við ætlum að halda því sem við höfum.”

Fram kemur í máli Magnúsar að ímynd íslenska saltfisksins í Katalóníu og í Baskahéruðunum sé mjög góð og Norðmönnum hafi ekki tekist að ná sömu gæðum. Hlutdeild Norðmanna hafi því mest vaxið í flöttum smáum fiski í suðurhéruðum Spánar.

Sjá nánar um saltfiskmarkaðina á Spáni og í Portúgal í nýjustu Fiskifréttum.