„Það er á valdi löggjafans að velja á milli kosta um það hvernig veiðireynsla verður lögð til grundvallar við úthlutun aflahlutdeilda við stjórn fiskveiða,“ segir í svari Svandísar Svarsdóttur matvælaráðherra við fyrirspurn frá Sigurjóni Þórðarsyni, varaþingmanni Flokks fólksins, um grásleppuveiðar.

„Aflaheimildir eru aðeins varanlegar í þeim skilningi að þær verða hvorki felldar niður né þeim breytt nema með lögum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 12/2000 frá 6. apríl 2000. Löggjafinn getur því frá einum tíma til annars m.a. kveðið nánar á um réttinn til fiskveiða, þar á meðal úr einstökum stofnum, eða bundið hann skilyrðum vegna breyttra sjónarmiða um ráðstöfun þeirrar sameignar íslensku þjóðarinnar sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru.“

Málefnalegar forsendur

Mat löggjafans þurfi þó ávallt að vera reist á málefnalegum forsendum þannig að ekki fari í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Jafnframt þurfi að gæta jafnræðis við takmörkun atvinnufrelsis.

„Meðal þeirra atriða sem löggjafinn getur látið ráða vali sínu í þessum efnum er tillit til hagsmuna af atvinnu og fjárfestingum, sem bundnir hafa verið í sjávarútvegi, og til reynslu og þekkingar því samfara, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 221/2004 frá 18. nóvember 2004. Það er því á valdi löggjafans að velja á milli kosta um það hvernig veiðireynsla verður lögð til grundvallar við úthlutun aflahlutdeilda við stjórn fiskveiða innan fyrrgreindra marka og hefur löggjafanum verið veitt víðtækt mat í þessum efnum, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 462/2015 frá 28. janúar 2015.“

Grásleppan

Fyrirspurn Sigurjóns var lögð fram í tilefni frumvarps Svandísar um kvótasetningu grásleppu, sem nú er til meðferðar á þingi.

Hvað grásleppuna varðar segir að atvinnuréttindum leyfishafa til grásleppuveiða verði „ekki raskað með hlutdeildarsetningu grásleppu enda fá þeir sem hafa nýtt réttindi sín og fengið leyfi til veiða grásleppu úthlutað aflahlutdeild, verði frumvarpið að lögum.“

Veiðireynsla verði lögð til grundvallar, en þeir veiðileyfishafar sem ekki hafa stundað grásleppuveiði á viðmiðunartímanum, þ.e. árunum 2014-2022, geti „ekki haft réttmætar væntingar til þess að veiðistjórn í grásleppu verði óbreytt.”