Sá óvenjulegi atburður átti sér stað að allur humarskipafloti Skinney-Þinganess á Höfn í Hornafirði lá við bryggju í Reykjavíkurhöfn í síðustu viku. Það hefur líklega ekki gerst áður nema þá hugsanlega á sjómannadegi að Þinganes SU, Skinney SU og Þórir SU liggi hlið við hlið við bryggju. Humarvertíðin hjá bátunum hefur staðið yfir síðan í mars og að sögn Ásgeirs Gunnarssonar, framkvæmdastjóra veiða og vinnslu hjá Skinney-Þinganes, hafa veiðarnar gengið fremur illa og eru menn uggandi yfir því að lítill humar nánast sést ekki í aflanum.

Ásgeir segir ástæðuna fyrir veru skipanna í Reykjavíkurhöfn einfalda. Áhafnir tveggja þeirra voru í helgarfríi og auk þess var bræla á miðunum.

Erfið vertíð

„Humarvertíðin hefur verið ansi erfið. Hún fór þó ágætlega af stað en veiðin er bara minni en verið hefur. Það vantar smáhumarinn inn í veiðina og það sem veiðist er eingöngu stór humar og aldrei verið jafn stór og nú. Hvað veldur þessu er erfitt að segja til um. Um þetta eru margar kenningar en þær byggjast kannski miklu fremur á getgátum en vísindum. Þetta veldur okkur ugg. Allar mælingar síðustu þriggja til fjögurra ára hafa sýnt að það stefni í þetta. Það eru að eiga sér stað miklar náttúrulegar breytingar í hafinu. Menn þurfa að fara út fyrir hefðbundna togslóð til að finna humar í einhverju magni en þar er lítið af smáhumar,“ segir Ásgeir.

Skip fyrirtækisins hófu humarveiðarnar í mars úti fyrir Suðausturlandi og voru við þær fram í maí. Þá var skipt um gír og veitt við Eldey en síðasta einn og hálfan mánuðinn hafa menn verið við veiðar í Jökuldýpinu.

„Það er ekkert annað svæði að gefa. Undanfarið ár höfum við getað flakkað á milli Eldeyjar, út af Grindavík, út á Reykjaneshrygg og Jökuldýpið og hvílt svæðin með þessu móti. Núna er það bara Jökuldýpið sem heldur uppi veiðinni. Þetta er því með öðrum hætti en verið hefur.“

Á fiskveiðiárinu 2016/2017 voru heimilaðar veiðar á 1.300 tonnum en á yfirstandandi fiskveiðiári 1.150 tonn sem er 12% niðurskurður og um helmingi minni ráðgjöf en fyrir árið 2011, svo dæmi sé tekið.

Skinney-Þinganes náði að veiða allan sinn humarkvóta á síðasta fiskveiðiári en Ásgeir segir að það hafi verið basl á öllum humarútgerðunum, sem eru í grunninn þrjár; Skinney-Þinganes, Vinnslustöðin og Rammi.

Verður að bæta í rannsóknirnar

Á sama tíma hefur markaður, jafnt innanlands sem erlendis, aldrei verið sterkari. Skinney-Þinganes flytur allan heilan humar út, mest til Spánar og Frakklands. Heili humarinn er um 50% af heildaraflanum. Þá hefur innanlandsmarkaður fyrir humarhala stækkað mikið. Fyrir nokkrum árum tók innanlandsmarkaður um 15-20% af hölunum en nú er hlutfallið komið upp í 60%.

Meðan skipin hafa verið við veiðar hefur verið landað jafnt í Grindavík og Reykjavík og síðan tekur við langur flutningur landleiðina austur.

„Við verðum að vera með skipin þar sem veiðin er því hér veiðist ekki neitt. Það er svo sem ekkert nýtt í því síðustu átta ár höfum við fært okkur vestar. En rannsóknir eru litlar en nú er rætt um að Hafrannsóknastofnun og útgerðir komi saman á ráðstefnu í vetur. Ég held að það sé mjög þarft en það verður að bæta í rannsóknirnar,“ segir Ásgeir.