Beitir NK kom með 800 tonn af íslenskri sumargotssíld til Neskaupstaðar sl. fimmtudagsmorgun. Síldin fór öll til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Börkur NK kom síðan með álíka afla á föstudagsmorgun.
Þeir Tómas Kárason skipstjóri á Beiti og Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki tjáðu heimasíðu Síldarvinnslunnar að sama ástand og verið hefur ríkti á síldarmiðunum vestur af landinu. „Þetta er ekkert sérstakt, góðir blettir á einstaka stað en lítið þar á milli. Síldin er býsna dreifð,“ sagði Tómas. Undir þetta tók Hjörvar og sagði að allan kraft vantaði í veiðarnar.
Bæði skipin héldu til síldveiða á ný að lokinni löndun.