Norska sjávarútvegsfyrirtækið Båtsfjordbruket hefur samið við íslenska hátæknifyrirtækið Völku um kaup á sjálfvirkum framleiðslubúnaði og er kaupverðið um fjórar milljónir evra – eða 545 milljónir íslenskra króna. Um er að ræða tvöfalda vinnslulínu til þess að snyrta, skera, dreifa og pakka fullunnum fiskafurðum.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Båtsfjordbruket er dótturfyrirtæki norsku sjávarútvegssamstæðunnar Insula AS og var stofnað árið 1981. Fyrirtækið á sér langa sögu í sölu og fullvinnslu á fiski.
Með nýju sjálfvirku vinnslulínunum frá Völku er fyrirtækið í stakk búið til að framleiða á skilvirkan máta úrval af ferskum og frystum vörum.
„Nýjar framleiðslulínur frá Völku gera okkur kleift að auka hæfni okkar og þjóna viðskiptavinum okkar á sem bestan hátt. Ennfremur bæta þær samkeppnishæfni okkar á markaði sem gerir sífellt meiri kröfur,” segir Frank Kristiansen, forstjóri Båtfjordbruket.
Áframhaldandi samstarf
„Það er mikill heiður fyrir okkur hjá Völku að taka þátt í þessu metnaðarfulla verkefni og aðstoða Båtsfjordbruket við að ná markmiðum sínum,” segir Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri Völku í Noregi.
„Árið 2015 settum við upp hjá þeim, sjálfvirkt kerfi fyrir flokkun og pökkun á heilum fiski og er þetta rökrétt næsta skref inn í framtíðina fyrir þau.“
Um Völku
Valka var stofnað árið 2003 og sérhæfir sig í hátæknilausnum í sjávarútvegi og hefur meðal annars verið leiðandi í þróun á vatnsskurðarvélum. Fyrirtækið hefur verið í örum vexti og tvöfaldaðist velta Völku árið 2018 frá fyrra ári. Valka starfar á alþjóðamarkaði og selur vörur og þjónustu víðsvegar í Evrópu og Bandaríkjunum.