Íslenska hátæknifyrirtækið Valka, ásamt umboðsaðila sínum First Process AS, hefur gert samkomulag við Mainstream, eina stærstu laxavinnslu Noregs, um sölu og uppsetningu á sjálfvirkri vinnslulínu og innleiðingu á alíslenskum flokkurnarhugbúnaði. Andvirði samningsins eru hartnær 20 milljónir norskra króna eða u.þ.b. 400 milljónir íslenskra króna.
Mainstream í Hammerfest er ein af mörgum framleiðslueiningum sem er í eigu fiskeldisrisans CERMAQ GROUP sem á fiskeldisstöðvar í Noregi, Skotlandi, Kanada og Chile og framleiðir um 120 þúsund tonn af laxi á ári.
Laxavinnslustöð Mainstream í Hammerfest í Noregi verður mjög fullkomin og þar verður að finna ýmsar nýjungar sem ekki hafa áður sést í sambærilegum vinnslum. Við hönnun var kappkostað að auka sjálfvirkni, bæta hráefnismeðhöndlun og vinnuaðstöðu starfsfólks, auk þess sem línan þurfti að vera eins vænleg til þrifa og mögulegt er.
Vinnslulínan gefur möguleika á gæða- og þyngdarflokkun á heilum fiski í söluumbúðir, bæði fyrir frystingu og frekari vinnslu, tékkvigtun og sjálfvirkum merkingum. Kassar eru myndaðir bæði fyrir og eftir ísfyllingu og lokun þeirra er sjálfvirk. Flokkarinn sendir pökkunarupplýsingar yfir til þjarka sem raða pöntunum sjálfvirkt á bretti.
Afkastageta vinnslustöðvarinnar verður um 30 tonn á klukkustund af unnum og pökkuðum laxi.