Austfirðir hafa oft verið fullur af vaðandi síld og fréttir hafa einnig borist af síld í fjörðum á Norðurlandi. Á heimasíðu Síldarvinnslunnar er þess getið að síldin er merkisfiskur og hún kemur og fer. Ánægjulegt sé að fylgjast með torfunum og smáhvölum sem láta öllum illum látum í þeim.

Þrír síldarstofnar hafa helst komið við sögu veiða Íslendinga á þessari merku fisktegund. Það eru íslenska sumargotssíldin, íslenska vorgotssíldin og norsk-íslenska vorgotssíldin. Stofn íslensku vorgotssíldarinnar hvarf reyndar í lok sjöunda áratugs síðustu aldar og hefur hans ekki orðið vart síðan. Spurningin er því aðallega sú hvort sú síld sem nú fyllir firðina sé af stofni íslenskrar sumargotssíldar eða af stofni norsk-íslenskrar vorgotssíldar.

Norsk-íslensk síld

Hrafn Bjarnason, verkefnastjóri hjá Síldarvinnslunni, tók sér fyrir hendur að veiða nokkrar síldar til að kanna um hvaða síld væri hér að ræða. Eins þótti fróðlegt að kanna stærð síldarinnar og hvernig hún væri á sig komin. Síldarnar sem Hrafn veiddi úr torfu á Norðfirði voru fimm talsins og tók Karl Rúnar Róbertsson, gæðastjóri í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar, þær til skoðunar.

Upplýsti Karl að síldarnar fimm væru á bilinu 250-350 grömm að þyngd.

Síldarnar fimm sem veiddar voru úr síldartorfu á Norðfirði. Þær voru vigtaðar, fitumældar og skoðuð í þeim hrogn og svil.
Síldarnar fimm sem veiddar voru úr síldartorfu á Norðfirði. Þær voru vigtaðar, fitumældar og skoðuð í þeim hrogn og svil.

„Þetta er hin fallegasta síld og lítur vel út í alla staði. Fituinnihald síldarinnar er 17-18% þannig að hún virðist vera ágætlega vel haldin. Það er nokkuð ljóst að þarna er um norsk-íslenska síld að ræða því það eru komin hrogn og svil í hana og töluverður tími síðan hún hrygndi,” sagði Karl Róbert.

Þess skal getið að síldveiði er hafin austur af landinu og kom Jón Kjartansson SU til Eskifjarðar með 1.250 tonn á sunnudagskvöld.