Allt var vaðandi í karfa, minna af þorsk og alls ekkert af ufsa á Hala þar sem frystitogarinn Hrafn Sveinbjarnarson GK var að veiðum í gær. Slegið var á þráðinn til Kristjáns Ólafssonar skipstjóra sem segir ufsann hafa verið vandfundinn allt þetta ár en menn vildu gjarnan veiða meira af honum og forðast í lengstu lög að ufsakvóti brenni inni eins og gerðist á síðasta fiskveiðiári.

Við ísröndina

„Við komum hingað í gærkvöldi [mánudagskvöld]. Það hafði verið ís yfir svæðinu sem náði langt austur í Þverálinn norður af Horni. En með breyttri vindátt hreinsaðist svæðið af ís og við ætluðum að athuga hvort einhver fiskur hefði ekki orðið þar eftir,“ segir Kristján.

Kristján Ólafsson skipstjóri.
Kristján Ólafsson skipstjóri.

Hann segir það oft gerast að fiskur sé við ísröndina þótt það sé engin regla. Undanfarið hafi þetta verið barningur á Vestfjarðamiðunum. Þar hafi aðallega verið karfa að fá með nánast engri fyrirhöfn því nóg er af honum í kantinum.

Fínasta þorskveiði í Hornbankahólfinu

„Það hefur reyndar verið fínasta þorskveiði síðustu daga. Hún byrjaði norður af Horni í Þverálsbotninum og barst hratt austur eftir. Þeir eru núna norðaustur úr Hornbankahólfinu og þar er bara fínasta veiði á þorski. En það er ekki mikið af honum hérna á Halanum en karfi eins og þú vilt. Við reynum að forðast hann eins og við getum.“

Trollið kafloðið af síld

Kristján segir að menn hafi ekki orðið varir við loðnu á þessum slóðum fyrir nokkrum dögum síðan var óhemjumagn af síli á grynnsta vatninu á Halanum og trollið kafloðið af síli þegar híft var í birtu. Það sé því nóg æti á þessum slóðum. Desembermánuður hafi þarna oft reynst erfiður hvað þorskveiðar varðar en það þurfi aldrei að teygja sig eftir karfanum og hann komi í miklu magni bara sem meðafli.

Stefnt er að því að Hrafn Sveinbjarnarson landi í Hafnarfirði 22. desember og kemst þá „Stjánagengið“ í gott jólafrí eins og „Valsgengið“ sem kennt er við Val Pétursson skipstjóra sem rær á móti Kristjáni. Hann segir ekki samkeppni milli gengjanna. „Það er góð samvinna en auðvitað vill maður hafa ballans á þessu,“ segir Kristján.