Athyglisverðir bátar hafa litið dagsins ljós á síðustu árum í krókaaflamarkskerfinu, bátar sem lúta kannski frekar lögmálum reglugerðaríkisins en fagurfræðinnar, segja sumir. Flestir eru þeir smíðaðir úr trefjaplasti en nú eru að bætast í flóruna 30 tonna bátar smíðaðir úr stáli og áli.

Ráðgarður Skiparáðgjöf ehf. er eitt þeirra fyrirtækja sem hefur hannað báta inn í þetta kerfi fyrir helstu innlendu bátasmiðjurnar, þ.e. Trefjar, Víkingbáta og áður fyrr Seig, seinna Seiglu, og nú síðast fyrir Skipasmíðastöð Njarðvíkur.

Hjá Ráðgarði Skiparáðgjöf,  sem stofnað var 1990, starfa Daníel Friðriksson skipatæknifræðingur og Róbert Gíslason iðnhönnuður. Róbert hóf störf 2014 en hafði áður m.a. unnið að því að gera allar teikningar að skipaflota HB Granda stafrænar.

Fyrstu árin hannaði fyrirtækið breytingar sem gerðar voru á Japanstogurunum. Þetta voru tíu togarar sem smíðaðir voru fyrir íslenskar útgerðir í upphafi skuttogaravæðingarinnar. Sá fyrsti kom landsins í febrúar árið 1973. Skipin voru lengd og settar í þau nýjar vélar auk þess sem sett var á þá perustefni sem er útbreidd hönnun í dag. Fyrirtækið hefur komið að hönnun fjölda annarra skipa á þessum árum, þar á meðal á portúgölskum togara sem er á veiðum við Nýfundnaland og olíuskipinu Keili svo fátt eitt sé nefnt.

Saga K og Óli í Stað

Undanfarin ár hefur Ráðgarður Skiparáðgjöf látið að sér kveða í hönnun minni báta en það hófst reyndar með samstarfi við Seiglu á Akureyri árið 2008. Tveimur árum síðar teiknaði Ráðgarður Skiparáðgjöf 15 metra langan trefjaplastbát fyrir Eskoy í Noregi sem heitir Saga K og Seigla smíðaði. Í framhaldinu var Óli í Stað GK hannaður sem seinna varð Sandfell, Hafrafell sem upphaflega hét Oddur í Nesi, Gullhólmi og nýr Óli í Stað fyrir Stakkavík í Grindavík. Seigla lenti í hremmingum um mitt ár 2017 þegar bátasmiðjan brann til kaldra kola. Ráðgarður Skiparáðgjöf fór þá að hanna báta fyrir enska skipasmíðastöð. Annar þeirra hét Gulltoppur VE og hinn Selma Dröfn sem fór til Norður-Noregs. Árið 2018 var Hafborgin EA, 26 metra langur dragnótar- og netabátur, smíðaður í Danmörku úr stáli eftir hönnun Ráðgarðs Skiparáðgjafar fyrir samnefnda útgerð í Grímsey.

  • Hulda GK er merkilegur bátur fyrir byggingarlag sitt og var stærsti trefjabátur, og er enn, sem hefur verið smíðaður á Íslandi. Mynd/Jón Steinar Sæmundsson

Árið 2019 hannaði fyrirtækið krókaaflamarksbátinn Huldu GK sem Trefjar smíðuðu og var tekin í notkun á fyrri hluta árs 2021. Hulda GK er merkilegur bátur fyrir byggingarlag sitt og var stærsti trefjabátur, og er enn, sem hefur verið smíðaður á Íslandi.

„30 brúttótonna stærðin er að taka yfir innan krókaaflamarkskerfisins og þá vakna hugmyndir um hvaða breidd og lengd hentar best. Vegna mönnunarreglna varð niðurstaðan sú að báturinn var hafður 12 metra langur og 6,7 metra breiður,“ segir Róbert. Daníel bætir því við að reglugerðir stýri að stórum hluta hönnun þessara báta og fyrir vikið verði talsverðar umræður um útlit bátanna.

„Kannski þegar ég er komin á eftirlaun reyni ég að teikna bát sem mér finnst fallegur. En reyndin er samt sú að þegar bátar fiska vel fríkka þeir gjarnan mikið,“ segir Daníel.

Hönnunin snýst að öllu leyti að koma öllu sem tilheyrir vel fyrir í bátnum, þ.e.a.s. nægilegu rými í lest með standandi hæð, plássi fyrir línubeitningarvél, krapavél og ekki síst góðan aðbúnað fyrir áhöfnina.

„Við náðum því fljótt í þessum bátum að hafa í þeim átta kojur í fjórum klefum. Það eru fjórir í áhöfn þessara báta og hver með sinn klefa og nokkuð rúmt um allt þar, enda er báturinn nánast heimili þessara manna. Þess vegna er líka sú krafa að setustofa og eldhús sé vel úr garði gert.“

  • Háey að landa á Húsavík í desember sl. Báturinn hefur reynst afar vel. Mynd/Hafþór Hreiðarsson

Margt hefur breyst

Háey ÞH sem Ráðgarður Skiparáðgjöf hannaði og Víkingbátar smíðuðu fyrir GPG Seafood á Húsavík fór í sína fyrstu veiðiferð í desember síðastliðinum. Hann er ekki ólíkur Huldu að gerð en er 13,2 metrar á lengd, 5,5 metrar á breidd og með pláss fyrir 62 stykki af 460 lítra körum.

  • Árið 2018 var Hafborgin EA, 26 metra langur dragnótar- og netabátur, smíðaður í Danmörku úr stáli eftir hönnun Ráðgarðs Skiparáðgjafa. Mynd/Þorgeir Baldursson

Heyrst hefur að trefjabátar þurfi talsvert viðhald og séu einfaldlega ekki nægilega sterkbyggðir til að bera allan þann þunga sem er í nútímabátum í krókaaflamarkskerfinu. Daníel segir að þetta geti átt við um fyrstu trefjabátana en síðan hafi margt breyst. Fyrstu árin voru bátarnir smíðaðir samkvæmt samnorrænni reglugerð sem tók ekki nema að litlu leyti tillit til þess hve þungir þeir gátu orðið með öllum búnaði og afla.

„Síðustu árin höfum við því farið út í það að vera langt yfir reglunum hvað þykkt skrokksins varðar. Síðustu bátarnir okkar eru 50% þykkari en þeir þurfa að vera samkvæmt þessum reglum,“ segir Daníel.

Aftur í stálið

Síðasta frumhönnun Ráðgarðs Skiparáðgjafar er hins vegar 30 tonna bátur með skrokk úr stáli og yfirbyggingu úr áli, þ.e. allt sem er ofan millidekks. Báturinn er smíðaður í Tyrklandi og fullkláraður hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur.  Þegar hefur samningur um kaup á slíkum bát verið undirritaður milli Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur og útgerðarfélagsins Stakkavíkur. Daníel segir að hugmyndin að efnisvalinu sé alfarið komin frá Skipasmíðastöð Njarðvíkur.

Sparneytni og umhverfishæfni er snar þáttur í hönnun bátanna sem verða með glussadrifna skrúfu og tvær 280 kW vélar. Skrúfan er stærri en gengur og gerist, eða 1,70 m í þvermál en algengast er að stærðin sé um 1 metri. Skrúfan snýst mun hægar og kosturinn við þetta kerfi er að þegar verið er að leggja eða draga línuna dugar önnur vélin til að fullnægja allri orkuþörfinni. Þegar keyrt er á milli svæða eða úr höfn eða til hafnar er keyrt á báðum vélum og ganghraðinn þá níu hnútar. Ekki liggur ljóst fyrir hve orkusparnaðurinn verði mikill en öruggt talið að hann verði allnokkur.