Seinna í þessum mánuði er að vænta veiðiráðgjafar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) um loðnu í Barentshafi, en útlit er fyrir að loðnukvótinn árið 2012 verði svipaður og í ár. Ole Arve Misund, rannsóknastjóri norsku hafrannsóknastofnunarinnar, gaf þetta í skyn á landsfundi Norges Fiskarlag, heildarsamtaka í norskum sjávarútvegi.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknaleiðangra á þessu ári er loðnustofninn í Barentshafi 3,7 milljónir tonna, þar af er hrygningarstofninn 2,1 milljón tonna. Kvótinn í ár er 380.000 tonn og koma 60% hans í hlut Norðmanna (222.000 tonn) og 40% í hlut Rússa (148.000 tonn) eftir að 10.000 tonn hafa verið tekin frá vegna rannsókna. Þess má geta að loðnukvótinn í Barentshafi var 360.000 tonn í fyrra og 390.000 tonn í hittifyrra.
Í erindi Misund kom einnig fram að nægt fæðuframboð væri fyrir þorskinn í Barentshafi þrátt fyrir stækkun stofnsins. Útbreiðslusvæði þorsksins hefði stækkað með bráðnun íss. Útlit væri fyrir að þorskstofninn héldist áfram stór næstu árin. Aðrir fiskistofnar, svo sem ufsi, ýsa, norsk-íslensk síld og makríll, væru einnig í góðu ástandi.
Frá þessu er skýrt á vef samtaka norskra útvegsmanna.