Atvinnuvegaráðuneytið hefur birt reglugerð um úthlutun kvóta til frístundaveiða í sumar. Opnað verður fyrir umsóknir hjá Fiskistofu á morgun.

Kvótinn nemur alls 400 tonnum en sú nýbreytni er í reglugerðinni að nú getur hvert skip sótt um allt að tíu tonnum í einu, en tíu tonn er jafnframt hámarksúthlutun sem hvert skip getur fengið á fiskveiðiárinu.

Greiða þarf Fiskistofu fyrir aflaheimildir og nemur verðið 80 prósentum af meðalverði í viðskiptum með aflamark í lok dags daginn áður en viðskiptin fara fram.

Fiskistofa skal afgreiða umsóknir næsta virka dag eftir að þær berast Fiskistofu, séu þær sendar inn fyrir klukkan 16:00.